Hraðhleðslustöð við fyrirtæki og stofnanir

Eitt af því sem hefur hamlað fjölgun rafmangsbíla er takmarkaður fjöldi hraðhleðslustöðva hringinn í kringum landið. Um daginn stóð til að fara í dagsferð til Vestmannaeyja og lítið mál hefði verið að komast í Herjólf frá Reykjavík á Nissan Leaf, Kia Soul eða Golf en þegar til Eyja er komið hefði ég þurft að komast í hraðhleðslustöð. Eini bíllinn sem hefði ekki lent í vanda væri Teslan en hann er ekki á færi flestra að kaupa enn sem komið er.

Þegar til stóð að planta niður fjölda hraðhleðslustöðva um landið voru fjöldi fyrirtækja eins og til dæmis hótel, veitingastaðir og verslanir sem höfðu áhuga að reisa slíka stöð. Gallinn við hraðhleðslustöðina er að hún þarf að komast í gott rafmagn og ekki er stöðin sjálf ódýr eða 1.500.000 kr og þá á eftir að setja hana niður en uppsetningarkostnaður er frá 1.100.000 kr. Það er því ekki á færi lítilla fyrirtækja eða hótela úti á landi að leggja í slíkan kostnað til að efla græna ímynd fyrirtækisins, taka þátt í fjölgun rafmagnsbíla og laða til sín viðskiptavini.

Einföld hleðslustöð.

Einföld hleðslustöð.

Hugsanlega hefur áherslan á fjölgun hraðhleðslustöðva verið þess valdandi að aðrir ódýrari kostir hafa ekki verið skoðaðir. Fyrirtæki og jafnvel einstaklingar geta tekið virkan þátt í að efla aðgengi að hleðslupóstum á ódýran hátt og ekki er þörf á flóknum dýrum hraðhleðlustöðum. Hótel geta reist einfalda pósta við bílastæði með venjulegum 10 amp rafmagnstengli fyrir gesti hótelsins sem koma á rafmagnsbílum. Þar sem fólk gistir yfir nótt getur venjulegur rafmagnstengill hlaðið t.d. Nissan Leaf á 9-11 klst (0 – 100% hleðslu). Kaffihús, veitingastaðir og verslanir geta reist öflugari hleðslustöð eins og t.d. JuiceBox 30 sem tengist við 16 til 30 ampera tengil (eins og t.d. fyrir þurrkara) og getur þá hlaðið rafmagnsbíl, eins og Nissan Leaf, Kia Soul og fleiri, á rúmlega 4 tímum (0-100%). Einstaklingar (og fyrirtæki) sem eiga rafmagnsbíl geta merkt heimilið sitt á Plugshare heimasíðuna og með því móti gefið öðrum rafmagsbílaeigendum sem þurfa að fá straum aðgang að hleðslustöð þeirra, hvort sem það er gegn gjaldi eður ei.

JuiceBox hleðslustöð, einföld, ódýr en öflug.

JuiceBox hleðslustöð, einföld, ódýr en öflug.

Ef við víkjum aftur að Vestmannaeyjaferðinni þá hefði verið kjörið ef t.d. Herjóflur hefði verið með JuiceBox 30 hleðslustöð í bílageymslu skipsins. Frá því bíllinn var kominn inn í skip og við komin til Eyja liðu rúmlega 50 mínútur og hleðsla í skipinu þá bætt við 50 km hleðslu á bílinn (miðað við 30 amp tengi). Í Eyjum stoppuðum við á veitingastað í um 1 klst. Ef veitingastaðurinn væri með sambærilega JuiceBox hleðslustöð fyrir viðskiptavini hefði klukkustundar hleðsla bætt við öðrum 50 kílómetrum á rafgeymana. Veitingastaðir gætu jafnvel boðið rafmagnið ókeypis sé verslað fyrir ákveðna upphæð.

Nú hef ég nefnt nokkrum sinnum JuiceBox hleðslustöðina sem kost fyrst og fremst vegna þess að hún er ódýr í kaupum, einföld í uppsetningu og þolir veður og vind en fjölmargir aðrir kostir eru á markaðnum. T.d. selur Litsýn hleðslustöð á 108.600 kr sem tengja má í hvaða tengil sem er, en hraðvirkasta hleðslan næst með því að tengja í 16 – 30 ampera tengil.

Fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög geta með ódýrum og einföldum hætti komið upp neti öflugra hleðslustöðva víðsvegar um landið, merkt þær inn á Plugshare vefsíðuna og tekið virkan þátt í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi hvort sem þau veita aðgang að hleðslustöðinni gegn gjaldi eður ei.