Hringferð í kringum landið á Nissan Leaf, er það hægt?

Nissan-leafEr raunhæft að fara hringferð í kringum landið á Nissan Leaf, eða öðrum rafmagnsbíl með sambærilega drægni? Það hafa ekki allir efni á að kaupa sér Teslu model S eða X og fara hringinn með því að hlaða þrisvar. Ef það á að vera raunhæfur kostur að ferðast á rafmagnsbílum einhverja vegalengd þarf að vera til staðar nokkuð þétt net hraðhleðslustöðva um landið.

Það sætir furðu að ekki eru fleiri hleðslustöðvar en raunin er þrátt fyrir fjölmargar fréttir þar sem fyrirtæki auglýsa áætlanir um uppsetningu á hleðslustöðvum og hraðhleðslustöðvum en svo líður tíminn og ekkert gerist. Til að vera sanngjarn þá þarf að taka fram að í flestum tilvikum hefur fjármögnun verið þrándur í götu þeirra fyrirtækja sem hafa haft áhuga á að setja upp hleðslustöðvar.

En hversu margar hraðhleðslustöðvar þyrfti til að komast hringinn og hversu oft þyrftum við að hlaða? Til að átta okkur á því þarf að hafa í huga hver er raunveruleg drægni rafmagnsbíla að teknu tilliti til hitastigs. Hraðhleðslustöðvar hlaða Nissan Leaf frá 0 – 80% á þrjátíu mínútum og gefum okkur að við ætlum ekki að dvelja lengur en þrjátíu mínútur á hverri hleðslustöð. En hversu langt komumst við á 80% hleðslu? Það veltur á ýmsu. Við allra bestu skilyrði hér á landi má búast við að drægni Leaf sé 80-90 km á 80% hleðslu (mögulega 100 km). Þá erum við að tala um 15-20 stiga hiti, logn eða lítinn vind og slökkt á miðstöðinni, viftan samt í gangi enda tekur hún afar litla orku (slökkt á hitaranum). Aftur á móti ef við erum að keyra í nóvember þá má búast við að við allra bestu skilyrði, 2-4 gráður, logn eða lítinn vind með kveikt á miðstöðinni, komust við 65-75 (mögulega 80 km) km á hleðslunni. Með þetta í huga þyrftu hleðslustöðvar að vera með 60 km millibili um allt land. En er það raunhæft?

CAM00914

Hraðhleðslustöð frá ON.

Við leggjum af stað í ferðalag frá Reykjavík með fullhlaðinn bíl (100%). Það er sumar og gott veður og á 90 km meðal hraða ættum við að komast vonandi 120 km á hleðslunni og þá erum við komin á Hvolfsvöll (109 km frá Reykjavík). Setjumst inn og fáum okkur kaffi í hálftíma meðan bíllinn hleður sig. Með 80% hleðslu leggjum við af stað og náum í Vík (81 km) sennilega með um 10-20% eftir af raforku. Sem betur fer er suðurlandið frekar mikið sléttlendi og ættum við að ná góðri nýtingu á orkunni. Við höldum áfram frá Vík til Kirkjubæjarklausturs (74 km) eftir að hafa fengið aðra kaffipásu í hálftíma í Vík. Fáum okkur hádegismat á Kirkjubæjarklaustri og leggjum aftur af stað með 80% hleðslu og keyrum í Skaftafell (71 km). Hér lendum við í vanda. Frá Skaftafelli til Hafnar í Hornafirði eru 137 km, því þarf að hlaða bílinn að fullu eða sem næst því til að komast 137 km. Hér má því búast við klukkustundar stoppi til að hlaða bílinn. Hægt væri að hafa hæghleðslustöð við Jökulsárlón (Level 2 hleðsla sem hleður leaf á fjórum tímum) stoppa þar í klukkustund eða svo og bæta 20-25% hleðslu inn á geyminn. Þá ætti að vera nokkuð öruggt að komast til Hafnar þó einungis hafi verið hlaðið að 80% í Skaftafelli.

Level 2 hleðslustöð frá Even. Hleður Nissan Leaf frá 0-100% á fjórum tímum.

Level 2 hleðslustöð frá Even. Hleður Nissan Leaf frá 0-100% á fjórum tímum.

Eftir klukkustundar stopp í Höfn í Hornafirði keyrum við á Djúpavog (107 km) og leggjum af stað að nýju eftir annað 30 mínútna stopp og keyrum til Egilsstaða (87 km). Þá erum við hálfnuð hringinn og hér erum við eiginlega stopp. Frá Egilsstöðum til Mývatns eru 175 km upp brattar brekkur og yfir svarta auðn þar sem ekkert er um gott rafmagn. Til að komast til Egilsstaða höfum við eytt samtals fjórum tímum í að hlaða bílinn, með einni klukkustund við Jökulsárlón (hæg hleðsla), og höfum keyrt 660 km. Miðað við 80 km meðalhraða má áætla að heildaferðalagið sé 12 klst og 45 mínútur. Nú veit ég ekki hvort allir séu reiðubúnir í slikt ferðalag en hafa verður í huga að sennilega mætir þú hress og kátur þegar á leiðarenda er komið eftir regluleg skyldustopp með tilheyrandi hreyfingu og tilbreytingu.

Næst skoðum við ferðina frá Reykjavík til Mývatns.

Creative Commons License
This work is licensed under a Creative Commons Attribution-ShareAlike 4.0 International License.