Rafmögnuð ferð til Ísafjarðar

Rafmögnuð ferð til Ísafjarðar

Jónas Guðmundsson og Jón Jóhann Jóhannsson eru í þessum töluðum orðum að keyra frá Reykjavík til Ísafjarðar. Það eitt og sér er ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að þeir keyra á Kia Soul rafmagnsbíl. Hægt er að fylgjast með ferðum þeirra á Facbook og einnig birtum við hér fréttir af ferð þeirra vestur. Ferðinn er farin á vegum Samgöngufélagsins og í fréttatilkynningu þeirra er þetta fyrsta ferð milli þessara staða á slíku faratæki svo vitað sé.

Nokkuð löng biðröð var í Hvalfjarðargöngunum. Vonandi eru þeir ekki að nota miðstöðina.

Nokkuð löng biðröð var í Hvalfjarðar-göngunum. Vonandi eru þeir ekki að nota miðstöðina.

Þeir feĺagarnir löggðu  í hann frá bílastæðinu Laugavegsmegin við Þjóðskjalasafnið kl. 9:30 og verður ferðinni í fyrsta áfanga heitið í Borgarnes og bíllinn  hlaðinn rafmagni í hraðhleðslustöðinni þar.

Frá Borgarnesi liggur leiðin í Stykkishólm og verður að keyra mjög mjúklega svo rafmagnið endist þangað sem vonandi verður og er stefnt að því að vera kominn þangað ekki seinna en um kl. 12:00. Þar er vonast til að komast megi í góða innstungu enda bíllinn sennilega orðinn því sem næst rafmagnslaus. Það tekur um 12 tíma að fullhlaða hann annars staðar en í hraðhleðslustöðvum og því kemst hann um 12 km fyrir hvern klukkutíma sem hann er í venjulegri hleðslu.

Frá Stykkishólmi verður farið með Breiðafjarðarferjunni Baldri yfir Breiðafjörð um kl. 15:45 og væntanlega komið að Brjánslæk á Barðaströnd upp úr kl. 18:00. Áhöfn Baldurs leyfir þeim að stinga bílnum í samband við rafmagn um borð.

Svo verður spennandi að heyra af ferðum þeirra eftir það því nokkur óvissa er um framhaldið en samkvæmt þeirra plani tekst þeim vonandi að komast a.m.k. rúmlega 70 km á hleðslunni, sem fékkst í Stykkishólmi og um borð í Baldri, eða til Þingeyrar. Ef tvísýnt er um það verður bíllinn væntanlega hlaðinn einhverja stund í Flókalundi og/eða í Mjólkárvirkjun í Arnarfirði. Ef að líkum lætur verður bíllinn síðan settur í hleðslu yfir nótt á Þingeyri eða annars staðar í Dýrafirði og honum ekið til Ísafjarðar og komið að Stjórnsýsluhúsinu þar ekki seinna en um kl. 13:00 á laugardeginum.