Hvað þarf að hafa í huga við kaup á notuðum Nissan Leaf?

Er hægt að gera góð kaup í notuðum Leaf en hvað þarf að hafa í huga?

Rafmagnsbílar hafa verið fjöldaframleiddir frá árinu 2004, eða frá því að Tesla Roadster kom á markaðinn. Fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn á raunhæfu verði fyrir fólk með meðaltekjur kom þó ekki á markaðinn fyrr en árið 2010 með Nissan Leaf og Mitsubishi i-MiEV. Reyndar höfðu flestir stærri bílaframleiðendur framleitt rafmagnsbíla á árunum 1996–1999 en því var fljótlega hætt eftir að löggjöfinni var breytt í Kaliforníu vegna þrýstings olíufyrirtækja og áhugaleysis bílaframleiðenda. Það er hins vegar önnur og talsvert sorglegri saga sem við förum ekki í hér en áhugasamir geta kynnt sér kvikmyndina Who killed the electric car.

Eins og fyrr segir hefur Nissan Leaf verið framleiddur frá árinu 2011 og selst hafa 233.000 eintök frá 2010. Með snöggri leit á bilasolur.is er hægt að sjá að þar er talsvert af notuðum rafmagnsbílum til sölu og þá er spurning hvort ekki sé hægt að gera góð kaup í slíkum Nissan Leaf. Einnig er hægt að kaupa notaða og flytja inn notaða bíla frá Bandaríkjunum á góðu verði vegna niðurfellingar á tollum og virðisaukaskatti. En hvað þarf að hafa í huga við kaup á notuðum rafmagnsbíl? Er þetta eins og hver annar bíll eða þarf að hafa annað og meira í huga?

Eins og með flesta bíla er gott að skoða ryðmyndun, slit í hjólabúnaði, bremsudiska, ástand hjólabarða og hvort bíllinn sé þéttur og góður þegar Nissan Leaf er skoðaður. En ólíkt bensínbíl sem kemst ávallt 400 km á tankinum hvort sem hann er eins árs eða tíu ára, keyrður 100.000 km eða 200.000 km, þá er drægni rafmagnsbíla breytileg eftir aldri og notkun. Dýrasti hluturinn í rafmagnsbílnum er rafhlaðan og skoða þarf sérstaklega ástand hennar hvað drægni varðar.

Þegar rafhlaðan eldist minnkar geta hennar til að viðhalda straumi. Því má segja að 5 ára gamall rafmagnsbíll ætti í raun að komast örlítið skemur á fullri hleðslu en þegar hann var nýr. Þetta er eðlilegt fyrir núverandi tækni en örlítið flækjustig er þó til staðar (en það gerir lífið svo skemmtilegt). Rafhlöður slitna mismikið eftir notkun, hleðslu og hitastigi. Tveir bílar af sömu árgerð, eknir sömu kílómetrana, geta haft ólíka drægni á fullri hleðslu.

Líftími rafhlöðunnar eftir hitastigi.

Líftími rafhlöðunnar eftir hitastigi.

Í stuttu máli eru eftirfarandi þættir sem hafa mest áhrif á endingu rafhlöðu í rafmagnsbílum:

  • Hversu lengi bíllinn er hreyfingarlaus með fullhlaðna rafhlöðu (100% hleðsla í lengri tíma er vont fyrir rafhlöðuna),
  • hversu stór hluti af orku rafhlöðunnar er notaður hvert sinn (því dýpri afhleðsla, því verra fyrir rafhlöðuna),
  • meðalhiti þar sem bíllinn er (hærri meðalhiti, því fyrr eldist rafhlaðan),
  • hversu oft hann fer í hraðhleðslu (því oftar, því meira slit).

Áður en þið panikkið og hættið við að skoða notaða rafmagnsbíla þá er vert að nefna að rafhlaðan er í ábyrgð hjá öllum bílaframleiðendum. Nissan ábyrgist að rafhlaðan viðhaldi í það minnsta 80% af drægni við 8 ára aldur, eða 160.000 km akstur. Búast má við að bílar sem fluttir voru nýir inn til Íslands gætu dugað lengur þar sem loftslagið er mun svalara hér.

En hvernig á þá að skoða þessa rafhlöðu? Ef bíllinn er fluttur inn nýr af umboði hér á Íslandi, þurfum við ekki að hafa áhyggjur af hitastigi sem bíllinn er notaður í. Á Íslandi er meðalhiti frekari í lægri kantinum og rafhlaðan eldist hraðar í heitustu fylkjum Bandaríkjanna heldur en í okkar svala loftslagi á norðurslóðum. Okkar loftslag mun því lengja líftíma rafhlöðunnar. Ef verið er að skoða að kaupa bíl frá Bandaríkjunum er ágætt að vita hvaðan bíllinn er og hvar hann hefur verið notaður. Nissan Leaf-eigendur sem búa í heitustu fylkjum Bandaríkjanna tilkynntu um ótímabært tap á drægni og í ljós kom að í bílum sem eru notaðir í miklum hita og oft hlaðnir upp í 100% (með tíðri noktun á hraðhleðslu) slitnaði rafhlaðan umtalsvert meira en hjá þeim eigendum sem notuðu bílinn á kaldari fylkjum Bandaríkjanna. Ef um er að ræða Nissan Leaf árgerð 2011–2012 sem fluttur er inn frá Bandaríkjunum er vert að kynna sér vel ástand rafhlöðunnar.

Ef þú ert nú komin/n í kvíðakast og veltir því fyrir þér hvernig þú getur klárað rafeindafræði á sem stystum tíma svo að þú getir metið ástand rafhlöðunnar, er gott að taka fram að mjög einfalt er að skoða stöðu rafhlöðunnar í Nissan Leaf. Í mælaborði er mælir til hægri sem sýnir með 12 stórum strikum hversu mikil orka er í rafhlöðunni. Til hægri við löngu strikin eru 12 styttri strik sem sýna ástand rafhlöðunnar, eða heilbrigði. Þegar bíllinn er nýr sjást 12 strik. Þegar bíllinn eldist og rafhlaðan tapar getunni til að halda hleðslu, þá detta stuttu strikin út. Það er ekkert óeðlilegt fyrir bíl sem keyrður er 100.000 km að vanta nokkur strik. En það er jafnframt jafn líklegt að finna bíl sem er keyrður 160.000 km og enn sjást 12 strik. Þó að 12 lítil strik séu sýnileg getur rafhlaðan samt sem áður hafa tapað allt að 12–15% af upphaflegri rýmd. Jafnframt er ekkert óeðlilegt að sjá bíl ekinn 90.000 km og búinn að missa 4–5 strik; hugsanlega væri hægt að fá hann á betra verði og hann nýtist vel innanbæjar um ókomin ár.

Rafhlöðu mælir í Leaf. Stuttu striking til hægri gefa til kynna hver staðan er á rafhlöðunni.

Rafhlöðu mælir í Leaf. Stuttu striking til hægri gefa til kynna hver staðan er á rafhlöðunni.

Hvernig bíl er best að leita að? Í stuttu máli getum við sett dæmið upp með eftirfarandi hætti: Við viljum finna bíl sem hefur oftast verið hlaðinn með long live-stillingunni (hleður þá ekki meira en upp í 80%) og sjaldnast keyrður alveg niður í 0%, er með hraðhleðslutengi en hraðhleðsla hefur verið notuð hóflega. Ef hraðhleðslutengið er ekki til staðar er það mínus (sem býður upp á að kaupa bílinn á lægra verði) en alls enginn heimsendir. Til stendur að fjölga umtalsvert hefðbundnum 16 og 32 amp-hleðslustöðvum hér á landi á næstunni fremur en hraðhleðslustöðvum samkvæmt fréttatilkynningu frá Orkusölunni sem hyggst gefa hleðslustaur í hvert sveitarfélag á Íslandi.

Notaðir rafmagnsbílar fást á góðu verði og jafnvel enn betra verði ef þú ert til í að flytja hann inn frá Bandaríkjunum (hvort sem er í gegnum umboðsölu hér eða flytja hann inn sjálf/ur). Skoðið vel hvernig þið ætlið að nota bílinn og leitið eftir góðu tilboði í notaðan Leaf sem hentar hvort sem hann hefur 12 eða 8 strik eftir. Ef þið viljið vera alveg viss og vita nákvæma stöðu á bílnum, þá er hægt að kaupa Leaf Spy-búnað sem talar beint við rafhlöðuna og gefur ýtarlegri upplýsingar um hversu mikla orku rafhlaðan geymir borið saman við hvernig hann var nýr. Meira um það síðar.

Hver er þín skoðun? Keyptir þú nýjan bíl eða notaðan? Endilega bættu við þínum hugleiðingum í athugasemdir hér að neðan.