Orka náttúrunnar rukkar fyrir hraðhleðslu

Það hlaut að koma að því. Frá því fyrsta hraðhleðslustöðin var sett upp árið 2014 hafa rafbílaeigendur hlaðið bíla sína sér að kostnaðarlausu. En frá 1. febrúar 2018 þarf að borga 39 kr. fyrir hverja mínútu sem bíllinn er tengdur. Með þessu móti vonar ON að það náist betri nýting á innviðum hraðhleðslustöðvanna að sögn fréttar á vef Orku náttúrunnar.

Sennilega fækkar þá talsvert þeim sem nota hraðhleðslu til að hlaða tengiltvinn bílana sína og þá sem stinga í samband eingöngu til að fá ókeypis rafmagn, en hafa að öðru leyti ekki þörf á því. Miðað við hefðbundin bíl sem hleður í 20 mínútur, og ætti að duga að hlaða 24 kwH Nissan Leaf úr 20% í 80%, mun það kosta 780 kr. Hraðhleðslustöðvar ON skila flestar af sér hátt í 50 kwh á klst. en hver og einn bíll takmarkar hversu mikið hann tekur af strauminum. T.d. tekur lengri tíma að hlaða kalda rafhlöðu en heita. Á köldum vetrar degi getur 39 kr. á mínútuna verið óhagstætt borið saman við sparneytinn bensín bíl. En á heitum sumardegi tekur rafbíllinn hraðar við hleðslu sem styttir tíman til að ná sömu hleðslu. Orka Náttúrunnar virðist vera að standa sig myndarlega í uppsetningu á „hlöðum“ umhverfis landið. Fjórar nýjar fyrir áramót og tuttugu og níu á árinu 2018.

En hvernig upplifa rafbíla eigendur fyrirhugaða gjaldtöku? Er um sanngjarnt verð að ræða eða óhóflegt arðrán á umhverfisverndandi, brautryðjendunum rafvæðingar bílaflotans?